Stórskáld fæðist lítill drengur

Hún verður krummum eftirminnileg gangan um kirkjugarðinn í fylgd Guðjóns Friðrikssonar á árshátíðardaginn, þar sem vitjað var genginna skálda.  Þar er Guðjón á heimavelli. Enda er honum í lófa lagið að lýsa lífshlaupi fólks, smáatvikum og tilfinningum, þó að það hvíli undir grænni torfu.    

Frá því segir í fyrsta bindi ævisögu Einars Benediktssonar að Katrín húsfreyja er á steypirnum:

Henni verður stundum gengið niður á vatnsbakkann og þar sest hún á stein og hugsar heim til foreldra sinna og æskufélaga norður í Skagafirði. Stundum gengur hún upp á Túnhólinn suðaustur af bænum og skyggnist um, rétt eins og hún væri á Bjarnhettinum fyrir norðan. Eða þá hún ráfar inn að Helluvatni og  grætur svolítið í laumi. Hún er einstaka sinnum að pukrast við að yrkja svolítið sér til hugarhægðar. Hún á létt með það.

Benedikt er sjaldan heima.

Assessorsfrú Katrín Einarsdóttir Svendsen, 24 ára gömul, tekur jóðsóttina 31. október 1864, löngu fyrir tímann. Mágkona hennar, Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir, er sótt til Reykjavíkur. Lítill drengur fæðist. Hann er aðeins átta merkur og vart hugað líf og næstu tvo mánuði verður Katrín að liggja í rúminu til þess að halda hita á barninu. Guðfeðgin eru þau Þorbjörg og Ólafur, systkini Benedikts, og Jón Pétursson yfirdómari. Drengurinn er vatni ausinn og fær nafnið Einar eftir afa sínum á Reynistað, Einar Benediktsson.

Þannig kom stórskáld í heiminn. Lítill drengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Gott að hafa þig sem bloggvin.....Takk.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 20.2.2010 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband