Færsluflokkur: Íþróttir
24.1.2007 | 15:44
Hætti ég að verða ný-íhaldsmaður út af handbolta?
Þar sem ég er nú staddur í veröldinni hef ég helst aðgang að bandarískum sjónvarpsstöðum (sem hlýtur að henta mér, nýmunstruðum ný-íhaldsmanninum vel), og nokkrum arabískum, sem oftast eru mér lítt að gagni. Á íþróttasviðinu bjóða bandarísku sjónarpsstöðvarnar upp á endalausar heimsmeistarakeppnir í íþróttum sem ég hef enga tengingu við, amerískan fótbolta og hafnarbolta. Öll liðin sem keppa í þessum heimsmeistarakeppnum eru bandarísk. Síðasta sumar var heimsmeistarakeppni í hefðbundnum fótbolta og fór lítið fyrir honum á bandarísku stöðvunum. Útsjónarsamir vinnufélagar mínir náðu sér í gervihnattadisk, brutu kóðann held ég og ég naut úslitaleikjarins í félagsskap Ítala sem báru sigurorð af Frökkum, erkifjendunum.
Nú er önnur heimsmeistarakeppni í gangi sem bandarísku sjónvarpsstöðvarnar vita ekki af enda koma þar saman lið frá fleiru en einu landi. Heimsmeistarakeppnin í handbolta fer fram í Þýskalandi. Íslenska liðið hefur spilað í Magdeburg í fyrrum A.-Þýskalandi. Þar hefði ég komið að gagni enda bjó ég þar í grennd á síðustu öld, í Leipzig. Þarna þekki ég krárnar og kann að vera bulla. Heimavöllur minn. Ég hef fylgst vel með umfjöllun um leikina í gegnum Netið og gott að ég var fjarri löndum mínum öllum eftir leikinn móti Úkraínu. Eftir þann leik taldi ég möguleika strákanna okkar" enga vera. Ekki myndum við vinna Frakka. Ég hirti ekki um að fara út á skrifstofu seint að kvöldi til að kanna lokatölur. Niðurlæging biði morguns. Undrunin og gleðin var mikil þegar tölvan var ræst næsta dag og úrslitin könnuð. Það er undarlegt að vera einangraður í þjóðarstolti sínu, fjarri öllum löndum sínum, hafa engan til að ræða málin við. Ég vinn með Dönum og veit að þeir hafa vit á handbolta. Samt er varla hægt að monta sig við Dani, þeir hafa húmor fyrir flestu öðru en því að Íslendingur hafi þjóðarstolt og að íslenska landsliðinu, í hvaða íþrótt sem er, vegni betur en því danska.
Ég gatlas allar íþróttasíður þennan daginn. Allt var í sama stílnum, íþróttafréttamannastílnum, sem nær ekki að verða dýpri en tilefnið býður upp á, en allt var það jafn gaman. Ég leitaði meira að segja út fyrir landsteinana eftir bensíni og þessi klausa í franska dagblaðinu Le Monde (sem ég les sjálfsagt vegna þess að ég er ný-íhaldsmaður) dillaði mér mest:Visiblement, l'atmosphère était trop bonne autour de cette équipe de France", a constaté avec amertume le sélectionneur Claude Onesta. "Quand j'essaie de leur dire qu'ils ne sont pas les meilleurs du monde, j'ai parfois l'impression de prêcher dans le desert.
Franski landsliðsþjálfarinn lýsir hvernig honum leið eins og hrópandanum í eyðimörkinni" (gáfumannafrasi sem Ingibjörg Sólrún notaði árum saman og kollegar, t.d. Mörður Árnason. Þetta hlýt ég að vita af því að ég er ný-íhaldsmaður) þegar hann reyndi að segja frönsku landsliðsmönnunum, hinum bláu, að þeir væru ekki bestir í heimi. Þeir héldu það greinilega - þar til á mánudagskvöld.
Í gærkvöldi, degi eftir þennan glæsilega leik, er ég að flippa á milli stöðva á sjónvarpstækinu mínu og á einni arabísku stöðinni er handboltaleikur, Ísland 0 - 0 Frakkland. Leikurinn sýndur sólarhring of seint og ég kem inn í byrjunina! Hvílík lukka. Ég horfði í andakt á sólarhringsgamlan leikinn og sá að engu hafði verið logið í lýsingum blaðanna. Loksins komu arabísku sjónvarpsstöðvarnar að gagni. Ég hafði tekið eftir að þar var sýndur handbolti, en eingöngu ef trúbræður voru að keppa líkt og Marokkó, Egyptaland, Quatar eða Túnis. Ísland leikur við Túnis í kvöld, ég hef veika von um að sjá þann leik beint. Ég veit þó ekki hvort ég þurfi að endurskilgreina ný-íhaldsmennsku mína ef ég er farinn að sitja um sjónvarpsefni á arabískum sjónvarpsstöðvum. Góð ráð um það væru vel þegin frá reynslumiklum blaðamönnum og þjóðfélagsrýnum.
Steinar Þór Sveinsson
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.1.2007 | 10:48
Konur og fótbolti
Ég vinn með Höllu á Morgunblaðinu og spila fótbolta við hana í hádeginu tvisvar í viku. Þegar ég er ekki meiddur. Þar kallar hún sig Kvenfélagið Beygluna og beygli ársins er valinn af henni ár hvert úr röðum samherjanna. Það þykir vera mikil upphefð. Hún er góður knattspyrnumaður og ég hef raunar verið svo lánsamur að kynnast mörgum öflugum knattspyrnukonum í gegnum tíðina.
Þrátt fyrir að í bekkjarliðinu í Mýrarhúsaskóla væru hetjur eins og Kristján Finnbogason, síðar landsliðsmarkvörður, og Kristján Brooks, sem hefur skelft markverði úrvalsdeildarinnar með skothörku sinni, þá var Kristrún Heimisdóttir fyrirliði þess. Og við spiluðum einnig saman með Gróttu, eins og sjá má af meðfylgjandi mynd, og auðvitað er hún fyrir miðju, langsamlega kempulegust, meira að segja fyrirliði líka.
Ég man eftir stúlku af túninu við Vanabyggð fyrir norðan, sem mig minnir að hafi heitið Ingibjörg. Það fór ekkert á milli mála að hún bjó yfir hæfileikum og síðar frétti ég að hún væri einmitt fyrirliði eins af yngri flokkum KA í knattspyrnu. Það mál komst í fréttirnar því Fram kærði liðsuppstillinguna á þeim forsendum að hún væri stelpa og því var henni meinað um að spila með strákunum, þó að enginn stúlknaflokkur á sama aldri væri til fyrir norðan. Mikil skömm var að þeirri framkomu Framara.
Það er oft töggur í þeim konum sem kunna eitthvað fyrir sér í fótbolta eða öðrum karlaíþróttum". Þrátt fyrir að líkamlegir burðir séu minni, þá bætir keppnisharkan það upp. Þær gefa aldrei eftir og það nýtist þeim einnig á öðrum vígstöðvum. Það þarf ekki annað en að horfa til kvenna eins og Þorgerðar Katrínar, Kristrúnar Heimisdóttur og Agnesar Bragadóttur til að átta sig á því, - og Höllu Gunnarsdóttur.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.1.2007 | 15:01
Eiður er týndur ...
Ein ágætasta hljómsveit landsins heitir því dægilega nafni Ég. Burðarásinn í Mér er Róbert Örn Hjálmtýsson, söngvari, gítarleikari, laga- og textasmiður, en sveitin hefur sent frá sér tvær frábærar hljómplötur, Skemmtileg lög og Plata ársins. Á síðari plötunni er lagið Eiður Smári Guðjohnsen sem túlkar í senn snilld hins afburða fótboltamanns, sem Eiður Smári vissulega er, en um leið efann og angistina sem fylgir því að vera í fremstu röð, nokkuð sem Ég þekki væntanlega mjög vel - það næðir um mann á toppnum og um leið og kastljósið beinist annað kemur efinn, angistin.
Þetta ágæta lag rifjaðist upp fyrir mér sl. laugardagskvöld þegar ég var staddur á Ólympíuleikvanginum í Barcelona á leik Barcelonaliðanna FC Barcelona og RCD Espanyol de Barcelona. Espanyol er minna liðið í Barcelona, miklu minna reyndar þar sem FC Barcelona er eitt helsta fótboltalið heims, en Espanyol, sem er ári yngra lið, þvælist jafnan um miðja deildina (góð samantekt um liðið á Wikipediu, þar á meðal um undarlegt nafn þess).
Ég var þarna staddur í boði eins frammámanna Barcelona-borgar, sat í forsetastúkunni og átti kost á að þvælast niður á völl til að skoða mig um og heilsa upp á Eið Smára (hann vildi ekki tala við mig).
Ekki var að sjá á leiknum að Barcelona væri í öðru sæti deildarinnar en Espanyol neðan við miðju (nýbúnir að tapa fyrir Recreativo de Huelva í mjög slöppum leik). Heimamenn voru mun ferskari og ákveðnari og yfirspiluðu granna sína gersamlega framan af leiknum. Eftir það sigu þeir aftar á vellinum og leyfði Barca-mönnum að sýna knatttækni og sendingar en stoppuðu þá síðan ef þeir nálguðust markið.
Í slöku liði meistaranna var Eiður Smári einna bestur, duglegur þegar hann fékk boltann og átti tvö góð færi, annað sannkallað dauðafæri. Þess á milli var hann einmanalegur og eiginlega týndur, svona eins og segir í laginu góða: "Viltu finna mig, ég er týndur / hef ekki fengið boltann / í fimm mínútur"
Honum var síðan skipt útaf snemma í seinni hálfleik, en leiknum, lyktaði annars þannig að Espanyol vann sinn fyrsta sigur á Barcelona í fimm ár. Getur nærri að gestgjafi minn var afskaplega glaður.
Læt textann fylgja til áréttingar:
Hann tekur skot og skorar mark!
Skeytin-inn afturábak!
Hann skorar nánast alltaf þegar hann vill,
sama hver er í marki.
Maradonna
Jurgen Klinsmann
Roberto Baggio
Eiður Smári ...
Tekur skot og skorar mark!
Skeytin-inn afturábak!
Hann skorar nánast alltaf þegar hann vill,
af hvaða færi sem er.
Viltu finna mig, ég er týndur
hef ekki fengið boltann
í fimm mínútur
ég var með boltann, áðan
og sólaði fjóra,
og skoraði mark
mér hefur aldrei liðið svona illa
í fætinum og hálsinum, gefiði á mig!!
Hann tekur skot og skorar mark!
Skeytin-inn afturábak!
Hann skorar nánast alltaf þegar hann vill,
af hvaða færi sem er.
Albert Guðmundsson
Ásgeir Sigurvinsson
Arnór Guðjohnsen
Eiður Smári ...
Hann tekur skot og skorar mark!
Skeytin-inn afturábak!
Hann skorar nánast alltaf þegar hann vill,
sama hver er í marki.
(Maðurinn til vinstri við Eið á myndinni er Joan Laporta, forseti Barcelona, Frank Rijkaard þjálfari liðsins er til hægri. Laporta var þungur á brún á leiknum og yrti ekki á Daniel Sanchez Llibre forseta Espanyol. Rijkaard var líka styggur og sló bylmingshögg í hlið varamannaskýlisins þegar Espanyol komst aftur yfir, í 2:1, með marki Raul Tamudos.)
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2006 | 17:26
Björgólfur og boltaspark
Enn ein skrautfjöðrin í hatt Íslendinga. Sólskríkjan syngur:
Björgólf heillar boltaspark
byrjar útrásina;
eignast hefur Upton Park
og alla leikmennina.
Eggert hylltur á Upton Park | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...