Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
15.12.2006 | 11:33
NOKKRAR MIKILVÆGAR STAÐREYNDIR UM CHUCK NORRIS
- Chuck Norris getur skellt vængjahurð.
- Þegar Chuck Norris gerir armbeygjur, lyftir hann ekki búknum upp, hann ýtir jörðinni niður.
- Það tekur Chuck Norris 20 mínútur að horfa á "60 mínútur".
- Þrjár helstu dánarorsakirnar í Bandaríkjunum eru: 1. Hjartasjúkdómar 2. Chuck Norris 3. Krabbamein.
- Chuck Norris hefur talið upp á óteljandi - tvisvar.
- Það eru engin gjöreyðingavopn í Írak, Chuck Norris býr í Oklahoma.
- Chuck Norris getur deilt með núlli.
- Chuck Norris gengur ekki með klukku. HANN ákveður hvað klukkan er.
- Þegar Chuck Norris spilar körfubolta skoppar boltinn sjálfur af ótta.
- Chuck Norris bíður hratt.
- Ef Chuck Norris fellur í á, blotnar hann ekki, áin verður Chuck Norris.
- Sumir eiga Superman náttföt. Superman sefur í Chuck Norris náttfötum.
- Chuck Norris les ekki bækur heldur starir á þær þar til hann hefur fengið sitt.
- Heima hjá Chuck Norris eru engar dyr, aðeins veggir sem hann gengur í gegnum.
- Þróunarkenningin er bara kenning. Á jörðinni lifa þær verur sem Chuck Norris hefur leyft að lifa.
- Grasið er alltaf grænna hinummegin, nema auðvitað að Chuck Norris hafi verið þar, þá er það rautt.
- Ef þú gúgglar "Chuck Norris getting his ass kicked" færðu upp 0 síður.
(http://www.chucknorrisfacts.com/)
Þýðing: Huldar Breiðfjörð
3.12.2006 | 23:55
Jesúbarn í jötu með ljósum
Fyrsti sunnudagur í aðventu er í dag, sú tíð er maður dregur fram úr geymslu táknmyndir þeirra hátíðar sem fer í hönd, ýmist sýnilega gripi eða ósýnilega, það sem manni er innrætt og síðan það sem maður býr til sjálfur smám saman um ævina.
Lútersk-evangelísk kirkja hefur mótað helgihald okkar flestra og byggir á sérkennilegum siðum og sérkennilegri hegðan manna sem sveipa sig pelli og purpura og fara með töfraþulur, særingar. Fjólublátt er litur aðventunnar, litur yfirbótar og föstu, þrautar og pínu. Þriðja sunnudaginn í aðventu sláum við aðeins í, gaudete sunnudaginn, skiptum út föstunni og þjáningunni fyrir gleði, fjólubláu fyrir bleikt og rautt, nú eða blátt, konunglega blátt eða dimmblátt.
Grænt er líka litur aðventunnar, litur greninála sem halda lit sínum í frosti og snjó, vísbending. loforð, um að það vori á ný. Og svo rautt, rautt er líka jólalitur nútildags, rauðar húfur og feitur karl með hvítt skegg, heilagur Nikulás, Sinterklaas.
Jólasveinninn mótaðist á löngum tíma, föt skegg og húfa. Í jólaævintýri Charles Dickens sem kom út 1843 er anda þessara jóla, The Ghost of Christmas Present, lýst svo í íslenskri þýðingu Karls Ísfelds frá 1942:
... Hann var í óbrotnum, dökkgrænum kyrtli eða möttli einum klæða, bryddum hvítu loðskinni. Þessi kyrtill féll svo laust að honum, að brjóst hans var bert, eins og hann hefði fyrirlitningu á að hylja það með nokkru aðfengnu. Fætur hans, er komu fram undan hinum víða kyrtilfaldi, voru líka berir og á höfðinu hafði hann ekki annað en sveig úr kristsþyrni, sem blikandi klakanjólar héngu í á víð og dreif.
Grænt og rautt, ber kristþyrnisins, Ilex aquifolium, og græn blöð hans voru kjarni í miðsvetrarhátíð fyrri tíma, tíma fyrir Krists hingaðkomu, en eftir að trúin breiddist út, hinn nýi siður, var sagt að kristsþyrnir hefði sprottið upp í fótspor hans, þyrnótt blöðin og rauð berin eins og blóðdropar. Enskir kölluðu runnann heilagt tré, holy tree, og kalla í dag Holly.
Andi þessara jóla er dökkhærður og bjartur yfirlitum með tindrandi augu, en er dagur kemur að kveldi verður hann hærugrár. Í honum er að finna þætti sem síðar urðu að jólasveini okkar tíma, samtíningur úr öllum áttum og ekki uppfinning Coca Cola Company eins og svo margir halda. Þaðan er þó líklega komin rauða álfahúfan sem allmargir starfsmenn Morgunblaðsins settu upp fyrir ljósmyndara eins og sjá mátti í jólablaði Morgunblaðsins fyrir skemmstu, kókkynslóðirnar (kláraðu kókið þitt, heyrði ég móður segja höst við barnið sitt á Hressó fyrir löngu).
Ég ljóstra kannski upp um aldur þegar ég rifja upp að með fyrstu jólaminningum er eplakassi sem keyptur var til landsins í gegnum sambönd hjá Eimskipum. Epli eru löngu hætt að vekja jólastemmningu, nú eru það mandarínurnar, citrus reticulata, eða mandarínuafbrigðið klementína. Lýsandi þegar rauðum eplum var kippt útaf forsíðu jólablaðs eins blaðauka Morgunblaðsins og appelsínugular klementínur settar í staðinn. Kannski ætti maður að kaupa sér klementínutré í fötu fyrir næstu jól. Kaupa sér jólastemmningu.
Undir lok hvers árs byrja menn einmitt að auglýsa jólastemmningu til sölu (og eins byrja menn að kvarta yfir því að hún sé auglýst of snemma).
Á rölti um jólamarkaði í ýmsum löndum rekst maður á mismunandi jólasiði - í Kristinaníu var hass í pönnukökunum í pönnukökuhúsinu, í Brussel drekka menn kryddaðan sénever að létta sér jólagjafaleitina, og í Barcelona kaupir maður styttur af kúkakarlinum, caganer, til að stilla upp með Jósep, Maríu og Jesúbarninu.
Kúkakarlinn er ekki í aðalhlutverki, hann er gjarnan til hliðar, jafnvel bak við fjárhúsið. Siðurinn er líklega frá sautjándu öld - hann gat ekki verið með við jötuna, segja katalónsk börn mér, hann þurfti að kúka. Þannig er manni kippt út úr glansmyndinni - það er eiginlega ekki hægt að vera jarðbundnari en að sitja á hægðum sér og skíta aftan við fjárhúsið þegar kóngarnir (í spænsku helgihaldi) eru að heiðra Jesúbarnið. Þó maður sé með rauða skotthúfu. Menja bé, caga fort! sögðu katalónskir bændur við upphaf borðhalds.
Siðirnir breytast og ekki ástæða til að amast við siðaskiptum. Sumt er þó erfiðara að sætta sig við en annað - er til viðurstyggilegra fyrirbæri en kókbílalest niður Laugarveginn? Kannski á maður bara að sætta sig við það og sækja sér huggun í Jesúbarni í jötu með ljósum frá Rúmfatalagernum. Á aðeins 2.990 kr.
Trúmál og siðferði | Breytt 4.12.2006 kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
krummi
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- annapala
- arnih
- arnljotur
- begga
- birgitta
- bjarnihardar
- bleikaeldingin
- davidlogi
- don
- ea
- fararstjorinn
- feministi
- gattin
- geislinn
- grettir
- halldorbaldursson
- hallkri
- handsprengja
- handtoskuserian
- hannibalskvida
- herdis
- hlynurh
- hof
- hoskuldur
- hrollvekjur
- hugsadu
- hux
- ingibjorgelsa
- jonasantonsson
- kaffi
- kiddirokk
- kjarninn
- kjoneden
- kolgrima
- listasumar
- ljonas
- lostintime
- maggaelin
- magnusb
- malacai
- maple123
- nosejob
- pallvil
- ragnhildur
- reni
- ruthasdisar
- seth
- sigurgeirorri
- stebbifr
- steinibriem
- theld
- tulugaq
- vefritid
- vglilja
- vinursolons
- vitinn
- arniarna
- gisliblondal
- skak
- athena
... ... ... ... ... ... ... ... ...