Hróður lestrarfélagsins Krumma fer víða

Ég veit ekki hversu vel menn lesa Morgunblaðið er þar stóð þetta um daginn:
 
"SÞH víkur að þeim þætti skáldsögunnar þar sem segir frá umræðu í Lestrarfélaginu Krumma þar sem verið er að ræða þá gagnrýni, sem Halldór Laxness hafði fengið fyrir fjórar af stóru skáldsögum sínum (Vefarann mikla, Sölku Völku, Sjálfstætt fólk og Heimsljós)."
 
Er ekki ástæða til þess að okkar góði formaður lesi bókina sem vitnað er í (Gáfnaljósið) og meti hvort ástæða sé til að fá höfundinn, Kormák Bragason (Braga Jósepsson) á okkar fund? Hann gæti þá rætt við okkur um hið forvitnilega viðfangsefni bókarinnar ("Gáfnaljósið er raunsæ og dramatísk spennusaga og er skrifuð að meginhluta til í hefðbundnum frásagnarstíl þar sem skyggnst er inn í hugarheim óvenju bráðþroska persónu, umbrot og árekstra kynþroskaskeiðsins, skyggnst inn fyrir þær lokuðu dyr sem sögupersónan lifir og hrærist í, þar sem gilda önnur lögmál, þar sem talað er annað tungumál, þar sem gildir öðruvísi siðferði en almennt er viðurkennt í hinu borgaralega samfélagi."), eða um barnahneigð almennt, en af umsögn um bókina að dæma er hún fyrirferðarmikil í verkinu.
 
arnim.

Er að koma heimsendir?

Nú eru bíósýningar í borginni í algleymingi, alþjóðleg kvikmyndahátíð að hefjast og annarri að ljúka. Í tilefni af sýningu myndarinnar Inconvenient Truth, sem byggð er á samnefndri bók, ætlum við að fá til okkar Tómas Jóhannesson, sem nýlega flutti erindi á vísindaráðstefnu um efni þeirrar myndar. Hann ætlar að setja okkur inn í rökin með og á móti þessum kenningum Gores um yfirvofandi heimsendi. Og eflaust munu krummafélagar hlýða þögulir á.
Af því tilefni verður afsláttarsýning á myndinni fyrir krummafélaga fyrir krummafélaga í Sambíóunum klukkan 18.
Einnig ætlar Friðjón að halda erindi um orrustuna um Bandaríkin.
Loks býður Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík félagsmönnum Krumma afslátt á korti sem gildir á allar sýningar hátíðarinnar. Menn geta fengið passann á 4.500 krónur í stað 6.000. Þá þurfa þeir að melda sig til mín og geta síðan sótt passann á Thorvaldsen bar. Dagskráin er afar metnaðarfull eins og sést á blaðinu sem dreift var á öll um helgina. 
Á fundinum verður jafnframt kynnt dagskrá fram að áramótum, en stjórn krumma fundar í vikunni. Þar á meðal verða heimsóknir í forlögin og fyrirlestrar rithöfunda sem gefa út fyrir jólin.

Ég á ekki krónu!

Þá er maður að skríða undan sumri. Er eiginlega uppfullur af Björgólfi Thor Björgólfssyni eftir að hafa varið síðustu vikum og mánuðum í að viða að mér efni í viðtal við hann. Síðan er maður alltaf að frétta litlar örsögur frá fólki um hann eftir að viðtalið birtist. Vilhjálmur Jens Árnason sagði mér til dæmis frá því að hann hefði verið á landsleik og alltaf þegar færi hefði farið forgörðum hefði hann heyrt fyrir aftan sig: "Ég á ekki krónu!" Þegar honum varð litið aftur fyrir sig, þá sat þar Björgólfur Thor.

Annars er Björgólfur Thor enginn sérstakur vinur krónunnar. Hann hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji að Íslendingar taki upp evru og talaði um það í viðtalinu, þó að það kæmist ekki í blaðið, að það mætti svo sem einnig fara þá leið að beintengja krónuna við evruna, þó að það kæmi sér betur fyrir marga að slaufa henni alveg. Engu að síður var hann á þeirri skoðun að Íslendingar ættu að vera áfram í EES, enda fengjum við öll fríðindi þar án þess að fórna nokkru. En það væri grundvallaratriði að vera í Evrópusamstarfi, t.d. yrðu Íslendingar að geta unnið hvar sem er í Evrópu, þannig að ef samningurinn um EES dytti upp fyrir, yrðum við að ganga í ESB.


Gáfumannafótboltabók

Mér finnst ástæða til að vekja athygli manna á þeirri ágætu bók The Thinking Fans Guide to the World Cup, en í henni er fjallað um fótboltakeppnina miklu frá skemmtilegu sjónarhorni. Ýmsir mætir menn, rithöfundar og fleiri, voru fengnir til að skrifa um löndin sem þátt taka í kepninni og þá ekki endilega á fótboltalegum forsendum. Eins er að finna í bókinni ýmsar tölfræðilegar upplýsingar fyrir þá sem áhuga hafa á slíku.

Í bókinni kemur einnig fram, og er rökstutt rækilega, hvað þjóðir þurfa til að ná langt í HM:

  • Tilheyra Evrópusambandinu
  • Vera nýfrjáls
  • Nýlenduherrar sigra nýlendur (ekki þó Frakkar Senegala)
  • Illt er að vera olíuframleiðsluþjóð
  • Ekki vera of frjálslynd í fjármálum

Best af öllu er þó að vera Brasilía. 

Bókin er víst uppseld en meira væntanlegt.


Af höfundi Lolitu

Ég heimsótti Kristján Karlsson skáld í dag og barst Vladimir Nabokov í tal. Hann var vinsæll fyrirlesari við Cornell þegar Kristján var bókavörður við íslenska safnið í Íþöku, sem kennt er við Fiske. Kristján nefndi að í skáldsögu Nabokovs Pale Fire eða Bleikum eldi láti hann glæpamann flýja inn á safnið.  

Áður en bókin kom út hafði frú Vera Nabokov, sem var mikil fegurðardís, lagt leið sína á safnið. En þá gaf hún bókunum lítinn gaum, var meira að skoða landslagið, gá út í hornin og rýna í króka og kima. Kristján er sannfærður um að hún hafi verið að athuga staðarhætti fyrir manninn sinn, rithöfundinn. Og sýnir þetta vel að bókaskrif eru verk margra, þó að einn sé skrifaður fyrir þeim.

Ennfremur segir Kristján að í sögunni búi Nabokov til konungsríki nyrst í Evrópu "og mér finnst hann stundum vera að tala um Ísland". 


Hvenær er of langt gengið?

Það er gott að hafa vettvang fyrir míníatúra.

Ég tók viðtal við Sigurð Örlygsson listmálara á fimmtudag og birtist það í Morgunblaðinu á morgun, sunnudag. Alltaf falla einhver orð hjá viðmælendum sem ekki komast í endanlega útgáfu, en geta þó verið áhugaverð. Hann sagði mér að Ólafur Gunnarsson rithöfundur hefði eitt sinn sagt við sig, um hina örmjóu línu velsæmisins, sem gjarnan freistar listamanna: Ef það hvarflar að þér að þú hafir gengið of langt, gakktu þá lengra!

 


Krummi hefur sig til flugs

Yfir mold sig miðnótt breiddi,

mæddur, krankur huga' eg leiddi

fyrri manna forn og kynleg

fræði ýms, er ræktu þeir.

Þá hefur lestrarfélagið Krummi búið sér hreiður á Netinu og við hæfi að vitna í félaga Einar Benediktsson. Hér gera félagar krummar sér hreiður í kirkjuturnum. Skráð verður krúnk og krá um bókmenntir, listir, pólitík og önnur hrafnaþing. Vængjaþytur hrafna, - heyr...

...Aðeins það og ekki meir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband