Skipta Sykurmolarnir máli?

Þegar það fréttist að Sykurmolarnir ætluðu að koma saman og halda tónleika á ný tuttugu árum eftir að smáskífan Einn mol’ á mann kom út vakti það nokkurn fögnuð. Ég kíkti í plötuskápinn og fann þar smáskífuna og varð hugsað til þess er ég heyrði fyrst í Sykurmolunum. Á sínum tíma fannst mér lagið Ammæli ansi gott en hins vegar man ég að mér fundust Sykurmolarnir í upphafi ömurlegir á tónleikum. Sennilega skrifast það að mestu á hljóðkerfin sem hljómsveitir notuðu í þá daga því þegar fyrsta breiðskífan kom út hljómuðu lögin ansi vel. Ég man meira að segja þegar Sykurmolarnir hituðu upp fyrir Smithereens í Gamla bíói hljómuðu þeir svo illa að nokkur hluti áhorfenda yfirgaf húsið til þess að fá sér einn drykk í viðbót áður en skemmtunin hæfist. 

En aftur að endurkomunni. Ég gerði fastlega ráð fyrir að þetta yrðu tónleikar ársins enda eru Sykurmolarnir jú ein af þjóðargersemunum. En þegar ég spurði yngra liðið á mínum vinnustað hvort það ætlaði á Sykurmolanna mætti mér hlátur, og samt er þetta lið sem eltir Belle og Sebastian all leið lengst austur í land og stendur í stórræðum til þess að fá miða á Sufjan Stevens. Einn hafði meira að segja fengið boðsmiða frá einhverju stórfyrirtækinu en bara hent honum. Eftir tónleikana talaði ég við félaga minn sem var á tónleikunum með hópi manna í boði FL Group. Hann hafði reyndar aldrei hlustað áður á Sykurmolana en þetta var bara góð skemmtun. Um þúsund útlendingar komu sérstaklega hingað til þess að fara á tónleikna en í samtölum við þá kom fram að þeir mættu aðallega til þess að sjá Björk því það er svo langt síðan hún hélt síðast tónleika. Og til að kóróna allt þá var ekki einu sinni uppselt, á meðan að Magni er búinn að fylla höllina og byrjaður að selja miða á aukatónleika.  

Eftir þessa upplifun fór ég að velta því fyrir mér að kannski skipta Sykurmolarnir ekki eins miklu máli eftir allt saman eins og ég hélt. Í raun og veru þá voru þeir kannski og eru jaðarhljómsveit sem náði að slá í gegn erlendis í skamman tíma og þess vegna vita allir hverjir Sykurmolarnir voru. En samt kann enginn lögin þeirra, þau eru aldrei spiluð í útvarpi og maður heyrir sjaldan tónlistamenn nefna Sykurmolana sem áhrifavalda. Getur nokkur maður sungið heilt erindi í lagi með Sykurmolunum?  

Í dag koma þeir saman aftur og nú í boði FL Group til þess að bjarga fjárhag Smekkleysu (sem betur fer tókst það). Ég er nokkuð viss um að fyrir tuttugu árum þá hefði krökkunum í Sykurmolunum þótt það ansi hallærislegt og í raun fáranlegt að taka þátt í slíkri uppákomu. 


Byssur í heimi barnanna

pirates_matthewsÞað kom furðuleg frétt í sjónvarpinu um daginn. Sjóræningjar rændu íslensk hjón á hafi úti. Að vísu er ekkert skrýtið við að sjóræningjar ræni, allra síst á sjónum. En ég hafði sagt dóttur minni að sjóræningjar væru ekki til. Hún var nefnilega svo hrædd við sjóræningja. Þannig að hún leit stórum augum á foreldra sína og spurði: "Eru til sjóræningjar?" 

„Já," svaraði mamma.  

 „En þeir eru ekki með sverð?" spurði stelpan tvístígandi. 

„Nei, ástin mín," svaraði mamma.

„En þeir eru með byssur?" spurði hún.  

„Já," svaraði mamma.  

„Má hafa byssur?" spurði stelpan.  

„Nei," svaraði mamma og var ekkert að nefna að á íslenskum heiðum væri allt morandi af fólki í felubúningum með byssur.

„En það má hafa dótabyssu?" spurði stelpan.  

„Það er allt í lagi að hafa dótabyssu."

„Það er ein dótabyssa í Salómear húsi," sagði þá stelpan og létti af samviskunni. Svo hélt hún áfram að leika sér, komin með byssuleyfi, þó án þess að drepa neinn. Kjartan Halldórsson, sem rekur Sægreifann, gerði hinsvegar heiðarlega tilraun til þess sem gutti, og sagði frá því í viðtali á sunnudaginn var:

„Þegar við bjuggum í Syðsta-bæ var Valgeir í Ásum prestur hjá okkur og reyndist okkur alltaf vel. Hann kom oft til foreldra minna að húsvitja. Einu sinni sögðu systur mínar mér að þetta væri vondur kall og vissu að ég var frakkur og óþægur. Þær réttu mér kindabyssu, sem pabbi sálugi átti, og sögðu: „Skjóttu prestinn!" Ég lét ekki segja mér það tvisvar, stökk inn í stofu með byssuna og öskraði: „Skjóta prestinn!" Sem betur fer voru ekki skot í byssunni, bara hólkurinn, og ég var snúinn niður, - afvopnaður alveg á stundinni. Þá sagði klerkur: „Já, það er töggur í þessum.""


5973 árum eptir veraldarinnar sköpun

Almanak fyrir ár eptir Krists fæðing 1837, sem er hið fyrsta ár eftir hlaupaár enn fimmta eptir Sumarauka
útreiknað fyrir Reikiavík á Íslandi af
C.F.R. Olufsen
Prof Astronom
Útlagt og lagað eptir íslendsku tímatali af
Finni Magnússyni
Prof

Sem bókasafnari verður maður oft að glíma við þá tilfinningu að vilja eignast eitthvað bara til að eignast það. Það kemur þannig oft fyrir að maður rekst á einhvern prentgrip sem er svo eigulegur að maður verður eiginlega að komast yfir hann þó hann falli ekki að neinu sem maður annars er að safna, eða hafi ekki verið á lestrarlistanum, sem er nú sá listi sem ég annars styðst helst við. Svo var því til að mynda farið með lestrarbók Rasmusar Christians Rask sem mér áskotnaðist á dögunum, rit sem nú starir á mig úr hillunni sem ég skrifa þetta og álasar mér fyrir bruðlið (Lestrarkver handa heldri manna börnum með stuttum skíringargreinum um stafrófið og annað þar til heyrandi, samið af Rasmúsi Rask, Prófessor í bókmentafræði, bókaverði Háskólans og meðlim af ýmisligum lærðum Félögum. Kaupmannahöfn, 1830).

Fyrir stuttu var ég í heimsókn hjá kunningja mínum sem er með afbrigðum bókafróður maður og mikill safnari. Hann hefur iðulega útvegað mér ýmislegt fágæti og tilgangur með heimsókninni til hans var einmitt að skoða bækur sem honum höfðu borist og ég var að leita að. Eftir að þeim samskiptum okkar var lokið sagðist hann hafa nokkuð að sýna mér og dró fram úr felustað böggul af litlum kverum. Ég opnaði böggulinn og sá að þar voru komnir kubbarnir goðsagnakenndu, fyrstu árgangar Íslandsalmanaksins, heilt og fallegt eintak, óbundið.

Mig setti hljóðan enda hafði ég ekki áður séð slíkan og annan eins dýrgrip og reyndar aldrei séð nema stöku hefti eða slitrur úr hefti. Litla almanakið, eins og það er einnig kallað, var fyrirrennari almanaks Þjóðvinafélagsins sem flestir þekkja væntanlega, og var fyrst gefið út 1837 í samræmi við konunglega tilskipun í kjölfar tilmæla rektors og prófessora háskólans í Kaupmannahöfn. C.F.R. Olufsen stjörnufræðiprófessor var falið að semja almanakið en Finnur Magnússon fenginn til að snúa því á íslensku og laga að íslenskum háttum.

Fyrstu árgangar almanaksins voru í litlu broti og þaðan er komið heitið kubbarnir, en það var í þeirri stærð frá 1837 til 1860. Finnur sá um íslenskun almanaksins til 1849 að Jón Sigurðsson tók við verkinu og gerði á því ýmsar breytingar, lét meðal annars prenta það með latínuletri og síðan breyta brotinu 1861, en hann gerði líka efnisbreytingu á innihaldi þess.

Í almanakinu er ýmsan fróðleik að finna, til að mynda er þar tilgreindur grúi dýrlinga, getið um ýmsar messur sem hér var haldið upp á, finna má gamla misseristalið og fyrsti vetrardagur er settur á laugardag, sem olli víst deilum eins og rakið er í ágætri samantekt á vefsetri nútímaútgáfu almanaksins. Á þriðju síðu almanaksins má lesa:

Nærverandi ár reiknast eptir Krists fæðing 1837
Eptir veraldarinnar sköpun 5804
Frá trúarbragðanna síðustu siðaskiptum 320
Frá Oldenborgar-konungsættar ríkisstjórnar byrjun í Danmörku 388
Frá vors allranáðugasta konungs Friðriks hins sjötta fæðing 69
 
Eins og ég gat í upphafi þá verður maður stundum gripinn yfirmáta löngun til að eignast gamlar bækur eiginlega bara til að eignast þær. Sú löngun heltók mig eitt augnablik og ég missti út úr mér spurninguna: "Hvaða verð er á þessu?" Safnarinn vinur minn leit á mig og hristi hausinn án þess að segja orð af vorkunnsemi. Hann vissi að þetta væri svo langt frá minni kaupgetu að það tæki því ekki að hafa orð á því. Tók svo kubbana af mér og pakkaði þeim saman þegjandi.

 


Bólbeitur og íslensk tunga

james_bond_11Á síðasta krummafundi var rætt um vægi orða, eins og Friðjón nefnir í bláu appelsínunum. Þess vegna er vert að benda á að í tilefni af degi íslenskrar tungu hefur Námsgagnastofnun efnt til samkeppni undir yfirskriftinni „Nýyrði vantar". Andrés Magnússon kemur reyndar með þá ótímabæru athugasemd, sem hann sérhæfir sig raunar í, að engin af þeim enskuslettum sem taldar eru upp feli í sér merkingu sem ekki sé til orð yfir á íslenskri tungu.

Engu að síður er þetta verðugt verkefni fyrir krummafélaga að spreyta sig á, enda bókaverðlaun í boði og er mælst til að tillögu eða tillögum sé skilað fyrir 27. nóvember. Spurt er um casual fatnað, crossover tónlist, að deita, fusion-eldhús, nickið á MSN, outlet-búð, að skeita, trendsetter í tískunni og wannabe rokkstjörnu.

Nýyrðatalið rifjar upp grein um „pick-up"-línur sem undirritaður skrifaði í Morgunblaðið í febrúar árið 1997 undir yfirskriftinni „Bólbeitur". Ég fékk krummann Kristján Leósson til liðs við mig og við bjuggum til nýyrði yfir „pick-up"-línur, enda ekkert íslenskt orð til þeirrar merkingar. Bólbeita varð ofan á og önnur orð sem komu til greina voru ísbrjótur, brókarlykill, tökuorð og rúmmál.

Það er ánægjulegt að sjá orðið skjóta upp kollinum aftur núna. Svo virðist sem íslenskufræðingur hafi grafið það upp og nefnt í útvarpsþætti í apríl í fyrra. Orðinu er síðan hampað á glúbbi stúlku frá Fáskrúðsfirði, notað skýringarlaust í dagbók ritarans Gísla og 16 ára nemi í Hrísey sem lifir lífinu lifandi skrifar:

Vorum að horfa á þátt sem heitir "How I Met Your Mother" .. .SNILLD;D en talandi um það.. hafiði heyrt talað um "Bólbeitu" ?:D hahaha.. þau sögðu þetta í þættinum ..;) Eða þúst, þetta var þýtt þannig, snilld!:D Fyrir ykkur sem fattið ekki, þá átti þetta að þýða "Pick-up lína" :D hahaha! bólbeita. Mér fannst þetta snilld..;)

Nokkur dæmi um bólbeitur voru gefin í fyrrnefndri grein:

  • „Fyrirgefðu, hvaða bólbeita virkar best á þig?" 
  • „Geturðu nokkuð hjálpað mér að finna lyklana að nýja Rollsinum mínum?"
  • „Ég sakna bangsa. Vilt þú sofa hjá mér?"
  • „Það hlýtur að vera eitthvað að augunum í mér. Ég get ekki litið af þér."
  • „Þetta er happadagurinn þinn. Það vill svo vel til að ég er á lausu."
  • „Bond. James Bond."

Krummafundur og uppljóstranir

Það er stórskemmtilegt að vafra um bloggsamfélagið. Einkum þegar maður rekst á krummafélaga. Örn Úlfar heldur úti "röflinu". Og þar er færsla miðvikudaginn 8. nóvember, daginn eftir krummafund:

"Eða er það ekki? Styttist í stysta VISA tímabil ársins. Lognið á undan storminum. Fékk góða bók í hendurnar í gær, Undir himninum, eftir Eirík Guðmundsson. Stórskemmtilegur Krumma fundur í skrifstofum Bjarts. Athyglisverðar umræður um kosningarnar í BNA, að fornu, nýju og í framtíðinni. Athyglisverðar uppljóstranir um prófkjör Sjálfstæðisflokkinn (sem allir vlija nú sópa undir teppið með því að tala illa um Samfylkinguna). Skemmtileg flækja í gangi milli Skúla Helga og sme reyndar. Kveikjan að færslu sme var reyndar bloggið hans Gumma um undarlegar fréttaáherslur Blaðsins, sem fjallar um gamlar skoðanakannanir í stað þess að nefna að um það bil 12000 manns kusu í prófkjörum Samfylkingarinnar um helgina. Top that."

Það væri nú forvitnilegt að heyra meira um uppljóstranir um prófkjör Sjálfstæðisflokksins sem allir vilja nú sópa undir teppið. Ef til vill á næsta Krummafundi?


Skáldskapur á torgi stjórnmálanna

Var að lesa færslu Guðmundar Magnússonar undir yfirskriftinni Saklaus fórnarlömb á ritvellinum, þar sem Guðmundur fjallar um ritdeilu Egils Helgasonar og Björns Bjarnasonar. Nokkuð skemmtileg átök það, þó að ekki séu þeir einu sinni sammála um hvort þeir séu andstæðingar. Um það snýst raunar ritdeilan.

En hitt er forvitnilegra að Björn teflir fram broti úr ljóðabálknum Hrunadansi eftir Matthías í dagbókarfærslu 9. nóvember:

Það er vegið að þeim sem vitja síns tíma með dug
eins og vandræðaskáld sem telur sjálfum sér borgið
en það er víst erfitt að komast á krassandi flug
í kastljósi frétta og venja sig sífellt við orgið
í álitsgjöfum sem hatast við annarra hug
og halda í gislingu þjóð sem ráfar um torgið
þar sem frelsið er iðkað og afskræmt eins og gengur
og enginn veðjar á frelsisgyðjuna lengur.

Egill svarar á mánudag í pistli undir yfirskriftinni Ónefni, stjórnmálaskýringar, leirburður og segir um útspil Björns: "Nú bið ég þá að rétta upp hönd sem finnst þetta góður kveðskapur. Ekki? Nei, þetta er hnoð og hugsunin flatneskja. Maður þarf ekki að bera mikið skynbragð á bókmenntir til að sjá það." 

Og skyndilega er ritdeilan farin að snúast um það hvort þetta sé góður kveðskapur hjá Matthíasi!

Af þessu hefur Guðmundur áhyggjur, skyldi öðlingurinn Matthías Johannessen vera orðinn saklaust fórnarlamb á ritvellinum. Fjandakornið. Matthíasi er sama!

Það er frekar að það skemmti honum að kveðskapur hans rati inn á torgið sem hann yrkir um. Með gagnrýni sinni er Egill því að hefja upp kveðskap Matthíasar; koma honum á "krassandi flug". Um leið botnar Egill fyrripartinn sem Matthías kastar fram.  


Í hliði tímans

Æ, hvað það var notalegt að vera blaðamaður á fimmtudaginn var. Þá fékk ég í hendur ljóðabók skáldsins Hannesar Péturssonar Fyrir kvölddyrum, sem þó átti ekki að koma út fyrr en daginn eftir. Ég var allt í einu staddur í hliði tímans; fékk það dásamlega verkefni að skrifa frétt um fyrstu ljóðabók Hannesar í 13 ár, – áður en hún kom út! Það tók mig tæpan klukkutíma að renna hratt yfir hana einfaldlega vegna þess að ég var of óþreyjufullur til að dvelja við eitt einasta kvæði; ég varð að fá að bergja þegar á því næsta og því næsta.  

Ég verð að segja það strax að Fyrir kvölddyrum stóð undir væntingum, – og þá er mikið sagt! Þjóðskáld sem mælir. Ljóðin hafa leikandi létt form og mál og mynda óræða heild, þó að aldrei sjáist til botns. Þau grafa sig lengra niður í farveginn við hvern lestur, svo það myndast djúpir hyljir og þó speglast himinn yfir. Reglulega dregur maður óviðjafnanlegar hendingar upp úr kafinu. Eins og ljóðabrotið: "Hvílumst. Hlustum ef við getum/ á lífið – /hina löngu hugsun."  

Það er ánægjulegt að höfundur finnur sig í einu ljóði staddan á klapparskeri í Grímsey og auðvitað koma hrafnar við sögu í kveðskapnum. Krúnk! Og best að ljúka þessu með nýrri hendingu Hannesar Péturssonar: "Við stóðumst ekki án drauma/ neinn dag til kvölds…"


Hvað er heima?

Æ, gaman að finna ættjarðarstoltið við lestur á pistli Huldars Breiðfjörðs, félaga í Krumma, á Bjarti.is. Maður fær eiginlega gæsahúð og notalegan hroll. Pistillinn er raunar lengri eins og menn geta séð með því að fara á vefsíðu Bjarts. Slóðin er hér fyrir neðan.  

"Á meðan eldaflugið magnaðist og allt að verða tólf stóð ég úti í garði með bjórflösku og var uppteknari við að róa niður hund fjölskyldunnar – T. Breiðfjörð – en mikla andakt. Það voru engin heiti, engin eftirsjá né sérstök tilhlökkun, eða öfugt. Ég stóð bara í snjónum og horfði á gamla árið springa út, leka niður svartan himin, oní kræklótt tré. Svo var komið nýtt ár – 2006 – og eins og alltaf birtist það sem örlítið ljósari himinn en sá sem ég hafði horft upp í rétt fyrir tólf. Ég var að drekka bjór, byrjaður að finna á mér, leið vel. Og reyndar var restin af fjölskyldunni, sem stóð þarna rétt hjá – hjónin G. Breiðfjörð og H. Ingólfsdóttir - örlítið drukknari en yfirleitt áður á áramótunum (hugsanlega vegna þess að Skaupið hafði verið einhvernveginn þannig) svo það var kannski ekki alveg upp úr þurru að við byrjuðum allt í einu og í fyrsta sinn að syngja þrjú saman. Við klóruðum okkur í gegnum fyrsta erindi “Nú árið er liðið”, eða hvað það lag nú heitir, síðan leystist raulið upp í hlátur. Annaðhvort voru bjórarnir orðnir of margir eða við höfum aldrei kunnað allan textann, frekar en þú. Hinsvegar var faðir minn fljótur að framlengja stemninguna úr garðinum og inn í stofu með því að byrja að spila einhverja ítalska tenóra – sem þeim báðum finnst svo æðislegir – og hafði vit á að stilla nógu hátt til að við gætum örugglega öll sungið með. Sem við gerðum þar til ég náði loks í leigubíl og fór niður í bæ. Og þannig einhvernveginn var hann, hápunkturinn, á hálfsmánaðar heimsókn til Íslands eftir eins og hálfs ár dvöl í útlöndum. Hápunkturinn vegna þess að hann svaraði loks spurningunni sem hóf að bergmála í höfðinu á mér nokkrum dögum eftir að ég lenti á Keflavíkurflugvelli seint í desember. Hvað er heima?"

http://bjartur.is/?i=12&f=13&o=994


Hvað er þetta með ósonið

Rétt kominn af Al Gore helgimyndinni þar sem hann lofaði mannkyn fyrir að hafa stoppað í ósongatið og síðan af Krummafundi þar sem  jöklafræðingur sannfærði okkur um hið sama rekst maður á þessa skelfingarfrétt á vefnum!

Frábær fundur annars og afskaplega fróðlegur. Gleymdi þó að spyrja að því hvað varð um allan koltvísýringinn fyrir 40 milljón árum eða þar um bil - kannski orðið viðurkennd vísindi að Himalayafjöllin hafi orðið að til kæla andrúmsloft (koltvísýringur skolaðist úr andrúmslofti með súrri rigningu, sjá hér). Hitafar í dag (og síðustu tugmilljónir ára) semsagt óeðlilegt, eða þannig. 


mbl.is Gatið á ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu jafn stórt nú og mest hefur orðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krummi á Stykkishólmi

Ég talaði áðan við téðan Braga Jósepsson, sem varð í undrandi í meira lagi þegar hann heyrði af því að Lestrarfélagið Krummi væri til. Hann hafði svolitlar áhyggjur af því að okkur litist ekki á þann félagsskap sem sækti fundi Lestrarfélagsins Krumma í bókinni, en ég fullvissaði hann um það að við litum svo á að það væri löngu tímabært að Lestrarfélagið Krummi fengi verðugan sess í heimsbókmenntunum og við fögnuðum því þessu framtaki hans.
 
Bragi býr hinsvegar á Stykkishólmi og er ekki á leið í bæinn alveg á næstunni. Hann er fús að koma á fund til okkar og ætlar að hringja á undan sér. Á fundinum á þriðjudag í næstu viku verða lesnir stuttir og valdir kaflar úr skáldsögu Braga, sem fjalla einmitt um fundi Lestrarfélagsins Krumma. Bókin kom út í kilju, er gefin út af bókaforlaginu Mostrarskeggi, sem er í eigu Braga, og fæst í bókaverslunum Pennans á 1.800 krónur.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband